Samkvæmd niðurstöðu ársreiknings Stapa lífeyrissjóðs var ávöxtun Tryggingadeildar sjóðsins jákvæð um 0,2% á árinu 2008.

Raunávöxtun var hins vegar neikvæð um 13,9% en stjórn sjóðsins hefur samþykkt ársreikning sjóðsins fyrir árið 2008.

Þetta kemur fram á vef Landssamtaka lífeyrissjóðanna (LL).

Þar kemur fram að tryggingafræðileg staða sjóðsins versnaði umtalsvert og var hún í árslok neikvæð um 6,9% sem er verulega fyrir ofan skerðingarmörk, en fari sjóður niður fyrir -15% verður hann að skerða réttindi skv. lögum. Ekki er því nauðsyn á því miðað við þessa afkomu sjóðsins.

„Þetta verður að teljast þolanlegt miðað við erfitt umhverfi“ segir Kári Arnór Kárason framkvæmdastjóri sjóðsins á vef LL.

„Þetta er að vísu versta afkoma sjóðsins frá upphafi, en hafa verður í huga að við erum ekki að koma út úr neinu venjulegu ári. Það algjöra hrun sem hér varð hafði mjög neikvæð áhrif á afkomuna.“

Sjá nánar á vef LL.