Stapi lífeyrissjóður telur ranglega hafa verið staðið að því þegar innlán lífeyrissjóðsins hjá Straumi-Burðarási fjárfestingarbanka voru ekki færð yfir til Íslandsbanka og að ranglega hafi verið staðið að innleiðingu evróputilskipunar í lög. Stapi hefur sent fjármálaráðuneytinu bréf og krefst um sex milljarða króna í skaðabætur.

Formlegt svar hefur ekki borist frá stjórnvöldum en málið er til athugunar. Um er að ræða sömu fjárhæðir og Stapi lýsti of seint í þrotabú Straums-Burðaráss, sem nú heitir ALMC. Þá var kröfu lýst að fjárhæð um 5,2 milljarðar en hefur hækkað vegna ýmissa atriða, að sögn Kára Arnórs Kárasonar, framkvæmdastjóra Stapa. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að krafan væri ekki gild þar sem henni var lýst of seint í búið. Hann segir málið stórt og skylda lífeyrissjóðsins að reyna allt til þess að endurheimta peningana fyrir sjóðsfélaga.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð.