Flugfélagið Star Europe, dótturfélag Avion Group, hefur gert samning um leigu á farþegavél til þýska ferðaþjónustuaðilans TUI sem er stærsti ferðaþjónustuaðili Þýskalands, segir í tilkynningu.

Samningurinn nær til fimm mánaða eða frá byrjun júní til byrjun nóvember á þessu ári. Flogið verður frá Frankfurt til ýmissa áfangastaða TUI, t.d. Palma, Rhodos, Heraklion og Lazaronte. Heildarvirði samningsins er um 12,4 milljónir evra eða rúmlega 1,1 milljarður íslenskra króna.

?Við erum mjög ánægð með að Star Europe hafi náð samningum við stærsta ferðaþjónustuaðila Þýskalands, -og einungis mánuði eftir að félagið hóf flug undir eigin merkjum. Viðskiptavinir okkar í þýskalandi hafa með þessu sýnt nýju fyrirtæki mikla tiltrú sem er að sjálfsögðu gott fyrir framtíðarþróun Star Europe. Þetta gefur okkur svo sannarlega byr undir báða vængi á þessum stærsta ferðamannamarkaði Evrópu," segir Magnús Þorsteinsson, stjórnarformaður Avion Group.

Star Europe hóf nýlega starfsemi í Þýskalandi og var upphaflega áætlað að tvær Airbus 320 farþegavélar væru í rekstri sumarið 2006 en vegna góðrar verkefnastöðu hefur verið ákveðið að hafa fjórar vélar í rekstri, segir í tilkynningunni. Áætlað er að fjölga vélum umtalsvert á næstu árum.

Star Europe fékk nýlega útgefið flugrekstrarleyfi frá þýskum flugmálayfirvöldum og tók ferlið aðeins þrjá mánuði en venjan er að slíkt ferli taki 12 ? 18 mánuði. Framkvæmdastjóri Star Europe er Martin Greiffenhagen. Martin er þýskur að uppruna og hefur áratuga reynslu úr flugiðnaði.

Star Europe flýgur í ár til áfangastaða í Suður- og Austur-Evrópu frá fjórum stöðum í Þýskalandi: Dusseldorf, Frankfurt, Köln og Stuttgart.

Fyrstu flug félagsins voru fyrir þýska flugfélagið Germanwings og nú hefur TUI bæst í hópinn sem og aðrir ferðaheildsalar og flugfélög.

Star Europe tilheyrir leiguflugs og ferðaþjónustu hluta Avion Group (Charter & Leisure) sem nú hefur yfir að ráða flugrekstararleyfum í Bretlandi, Frakklandi og Þýskalandi. Þess má geta að í löndunum þremur til samans búa yfir 200 milljónir manna.