Í tilkynningu frá Sterling flugfélaginu kemur fram að engar breytingar verða á viðskiptum Sterling og Star Tours ferðaskrifstofunnar þar til í október á þessu ári. Langstærsti hluti leiguflugsins fer fram yfir sumarmánuðina og áhrif vegna samstarfsslita félaganna verða því óveruleg - ef nokkur - á þessu fjárhagsári.

Í tilkynningunni kemur fram að samningur félaganna hefur verið um leiguflug Sterling fyrir ferðaskrifstofuna, en tekjur Sterling af leiguflugi eru um 20% af heildartekjum félagsins. Í þeim hluta starfseminnar var Star Tours stærsti viðskiptavinur Sterling. "Í samningaviðræðunum sem upp úr slitnaði gerði Star Tours kröfur um afsláttarkjör sem ekki var unnt að mæta án þess að framlegð af viðskiptunum yrði óásættanleg fyrir Sterling," segir í tilkynningunni.

Þar kemur einnig fram að aðeins eru liðin þrjú ár síðan síðast slitnaði upp úr samstarfi Sterling og Star Tours, en ferðaskrifstofan varð á nýjan leik viðskiptavinur Sterling með sameiningu félagsins við Maersk. "Alþekkt er að stórir sem smáir viðskiptavinir flugfélaga, og ekki síst á sviði leiguflugsins, komi og fari eftir því hvar þeim þykir hagstæðast að vera hverju sinni og verða næstu mánuðir nýttir til þess að fylla það skarð í leiguflugi Sterling sem Star Tours skilur eftir sig í október næstkomandi," segir í tilkynningu Sterling.