Kaffihúsarisinn Starbucks greiddi 5 milljónir punda í fyrirtækjaskatt á þessu ári sem er í fyrsta skipti síðan 2009 samkvæmt tilkynningu frá Starbucks. Talskona fyrirtækisins segir að það muni greiða aðrar 5 milljónir síðar á árinu.

Starbucks hefur verið harðlega gagnrýnt að undanförnu fyrir að koma sér undan því að greiða skatt. Á síðustu fimmtán árum hefur fyrirtækið einungis einu sinni verið með hagnað sem það hefur þurft að greiða skatt af í Bretlandi. Samkvæmt talskonu Starbucks ákvað fyrirtækið að hlusta á viðskiptavinir sína og ákvað að sleppa ákveðnum frádráttarliðum sem gera það að verkum að fyrirtækið mun borga 10 milljónir punda í skatt á þessu ári og 10 milljónir árið 2014.

Á síðustu 14 árum borgaði Starbucks einungis um 8,6 milljónir punda í skatta og ekkert á síðustu fjórum árum. Háar vaxtagreiðslur til systurfyrirtækja í öðrum löndum hafa gert það að verkum að lítill sem enginn hagnaður hefur verið bókfærður af starfseminni í Bretlandi.