Kaffihúsakeðjan Starbucks hefur staðfest orðróm um að fyrirtækið ætli að hefja sölu á kaffi sem kostar einn Bandaríkjadal bollinn eða um 65 krónur íslenskar. Fyrst um sinn verður ódýra kaffið eingöngu til sölu á kaffihúsum keðjunnar í Seattle í Bandaríkjunum.

Talsmaður Starbucks sagði að um tilraun væri að ræða og alls óvíst hvort ódýra kaffið yrði boðið til sölu á öðrum sölustöðum fyrirtækisins í Bandaríkjunum eða í Evrópu.

Mikill samdráttur var í sölu hjá fyrirtækinu á síðasta ári en fram til þessa hefur bolli af gæðakaffi kostað allt að sex Bandaríkjadali eða um 400 krónur íslenskar hjá Starbucks. Samdrátturinn er rakinn til samkeppnisaðila Starbucks sem fram til þessa hafa boðið viðskiptavinum sínum kaffi á mun lægra verði.