Kaffihúsakeðjan Starbucks hyggst loka 61 af 85 verslunum sínum í Ástralíu. Þar með verður Starbucks aðeins til staðar í Melbourne, Sidney og Brisbane en ekki annars staðar í Ástralíu.

Starbucks réðst inn á Ástralíumarkað árið 2000 en hörð samkeppni hefur gert kaffikeðjunni erfitt fyrir.

Ástralskir fjölmiðlar sögðu 685 störf tapast vegna lokunar Starbucks kaffihúsanna.

Fyrr í þessum mánuði tilkynnti Starbucks um fyrirhugaða lokun 600 verslana sinna í Bandaríkjunum.

Hagnaður Starbucks dróst saman um 28% á fyrsta ársfjórðungi þessa árs, borið saman við fyrsta fjórðung árið 2007. Félagið kynnir uppgjör sitt fyrir annan fjórðung seinna í þessari viku.