Starbucks ætlar að auka veg og vanda tedrykkja á næstunni, með því að opna tebar í New York. Barinn verður opnaður á morgun. Hann verður hluti af Teavana keðjunni og þar verður selt te, sælgæti, flatbrauð, sallat og alls kyns smáréttir á sanngjörnu verði.

Starbucks keypti í fyrra Teavana keðjuna, en í henni eru 300 tebarir sem eru flestir staðsettir í verslunarmiðstöðvum. Forsvarsmenn Starbucks segja að ætlunin sé að gera te að stærri hluta af bandarískri menningu.

Starbucks rekur um 11 þúsund sölustaði í Bandaríkjunum, eftir því sem AP fréttastofan greinir frá. Reksturinn hefur gengið vel að undanförnu, þrátt fyrir alla efnahagserfiðleikana í Bandaríkjunum.