Bandaríski kaffihúsarisinn Starbucks tilkynnti í gær að keðjan hyggst loka á milli 5-600 kaffihúsum til viðbótar við þau 100 kaffihús sem keðjan hefur nú þegar lokað víðs vegar um Bandaríkin á síðustu 12 mánuðum að sögn Reuters fréttastofunnar.

Þá er einnig greint frá því að keðjan muni segja upp um 12 þúsund manns, sem er um 7% starfsmanna, þó reynt verði að flytja einhverja starfsmenn milli kaffihúsa en talsmenn félagsins segja að svo virðist sem neytendur haldi að sér höndum og versli sér ekki dýrt kaffi á kaffihúsum.

Starbucks hefur á síðustu fimm árum opnað kaffihús á svæðum sem hafa komið illa út úr þeim vandræðum sem nú ríkja húsnæðismarkaði í Bandaríkjunum, til að mynda Flórída fylki. Um 70% þeirra kaffihúsa sem nú á að loka hafa aðeins verið opin í um tvö ár, eða frá árinu 2006.