Starf forstjóra Landsvirkjunar er auglýst laust til umsóknar í sunnudagsblaði Morgunblaðsins. Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar, lýsti því yfir í viðtali við Viðskiptablaðið í byrjun ágúst að hann gerði ráð fyrir því að láta af því starfi fljótlega eftir að hann yrði 65 ára í október næstkomandi.

Umsóknarfrestur, samkvæmt auglýsingunni, er til 12. september.

„Þótt það sé heimild í starfsreglum okkar að bæta tveimur árum við hef ég gert samning við fjölskylduna um að flytja með henni til Noregs þar sem eiginkona mín er að taka við sendiherrastöðu,“ sagði Friðrik í fyrrnefndu helgarviðtali Viðskiptablaðsins.

Eiginkona hans, Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, varð sendiherra í Ósló í ágúst.