Stjórn Íbúðalánasjóðs hefur ákveðið að auglýsa starf framkvæmdastjóra Íbúðalánasjóðs laust til umsóknar og rennur umsóknarfrestur út 17. október nk. samkvæmt auglýsingum er birtust í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu um helgina.

Þrír af fimm stjórnarmönnum Íbúðalánasjóðs höfðu í fyrra ráðningarferli komist að þeirri niðurstöðu að best væri að ráða starfandi framkvæmdastjóra, Ástu B. Bragadóttur, sem framkvæmdastjóra. Tveir stjórnarmönnum töldu Yngva Kristinsson hagfræðing hæfastan í starfið. Ásta dró umsókn sína síðar til baka þar sem hún taldi Árna Pál Árnason, þá félagsmálaráðherra, vera með afskipti af ráðningaferlinu.

Árni Páll gerði tillögu um að skipuð yrði sérstök valnefnd til þess að ráða í starfið þar sem stjórnin var klofin í afstöðu sinni til þess hver væri hæfastur. Niðurstaðan nú er sem sagt sú að auglýsa starfið að nýju og meta umsækjendur í hefðbundnu ráðningaferli þegar umsóknarfrestur rennur út.