Starf ný rektors við Háskólann á Akureyri er laust til umsóknar. Fram kemur í auglýsingu að upphaf starfstíma rektors er 1. júlí næstkomandi. Umsóknarfrestur er til 28. febrúar næstkomandi. Katrín Jakobsdóttir þáverandi menntamálaráðherra skipaði Stefán B. Sigurðsson, þá prófessor og forseta læknadeildar Háskóla Íslands, í embætti rektors Háskólans á Akureyri árið 2009. Skipað er til fimm ára í senn og rennur hún út á þessu ári. Stefán tók við rekstorsstólnum af Þorsteini Gunnarssyni sem gegndi embætti rektors í tæp 15 ár.

Í auglýsingunni segir að rektor er formaður háskólaráðs sem fer með æðsta ákvörðunarvald innan háskólans. Hann er yfirmaður stjórnsýslu skólans og æðsti fulltrúi hans sem og talsmaður innan og utan hans, ber ábyrgð á og hefur eftirlit með allri starfsemi háskólans, þ.m.t ráðningar-og fjármálum einstakra fræðasviða og stofnana. Hann ber jafnframt ábyrgð á framkvæmd stefnu háskólans og tengslum háskólans við innlenda og erlenda samstarfsaðila.

Ætlast er til þess að umsækjandi sé með doktorspróf eða hæfismat dómnefndar, víðtæka reynslu á sviði fjármála og rekstrar og stjórnunar, reynslu á sviði  kennslu og rannsókna, framúrskarandi leiðtoga- og samskiptahæfni og reynslu af stefnumótunarvinnu og hæfileiki til að móta og miðla framtíðarsýn.