Nýlega hélt faghópur um vefstjórnun á vegum Skýrslutæknifélags Íslands hádegisverðarfund sem fjallaði um starfsumhverfi og hlutverk vefstjóra á Íslandi. Talið er að fjöldi vefstjóra á Íslandi hlaupi á nokkrum hundruðum en hvert hlutverk vefstjóra er innan fyrirtækja virðist þó vera mikið á reiki, þar á meðal hvar þeir séu staðsettir í skipuriti fyrirtækis og hvað nákvæmlega felist í starfi þeirra. Starfsheiti vefstjóra virðast einnig vera mikið á reiki en meðal starfsheita þeirra eru markaðsstjóri, upplýsingafulltrúi og vef- og viðmótssérfræðingur.

Vefstjóri er þúsundþjalasmiður

Sigurjón Ólafsson var einn af frummælendunum á fundinum en hann hefur síðustu ár unnið að því að efla virðingu og skilning á starfi vefstjóra. Sigurjón segir í samtali við Viðskiptablaðið að „starf vefstjóra sé ekki endilega mjög tæknilegt, það sé frekar verkefnastjórnunarstarf. Vefstjóri þarf að vera sérfræðingur í rafrænum samskiptum en hann þarf einnig að kunna skil á öllum helstu verkefnum vefsins, þ.m.t. hönnun og hvað sem þurfi til að gera vef nytsamlegan og þægilegan. Oft er starfi vefstjóra líkt við starfi heimilislæknis, hann þurfi að kunna skil á öllum helstu vandamálum en þurfi einnig að vita hvenær sérfræðings sé þörf.“

Þrátt fyrir óvissu um starfsheiti og hlutverk vefstjóra þá kemur fram í skoðanakönnun sem Sigurjón gerði nýlega meðal vefstjóra að stjórnendur hafi mikinn skilning á vefmálum fyrirtækja, en tveir af hverjum þrem vefstjórum sögðu að skilningur væri annaðhvort mikill eða mjög mikill. Sigurjón segir að hann hafi tekið eftir því að skilningur stjórnenda hafi aukist á síðustu árum, en hann rekur þá aukningu til nýrrar kynslóðar stjórnenda.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .