Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, segist hafa „verulegar áhyggjur" af því ef bankarnir taka yfir fyrirtæki og reki þau áfram eins og ekkert hafi í skorist.

„Því er ekki að leyna að við hér í ráðuneytinu höfum verulegar áhyggjur af því að sum fyrirtæki geti komist í skjól hjá bönkunum en önnur ekki," segir Gylfi.

Bankarnir þrír sem endurreistir voru á rústum gömlu bankanna þriggja, Glitnis, Kaupþings og Landsbankans, hafa þurft að taka yfir mörg fyrirtæki undanfarið ár. Í heildina hafa bankarnir yfirtekið að hluta eða í heild eignarhluti í 12 fyrirtækjum sem nú eru í fullum rekstri.

Brynjólfur Björnsson, eigandi og rekstraraðili verkfæraverslunarinnar Brynju á Laugavegi, segir í Viðtali við Viðskiptablaðið í dag að það sé sérkennilegt að reka fyrirtæki í samkeppni við yfirtekin fyrirtæki.

„Þetta er mjög sérkennilegt að bankarnir, og þar með ríkið í sumum tilfellum, skuli beita sér með þessum hætti sem gert er [...] Ég geri ráð fyrir að Samkeppniseftirlitið þurfi að skoða þessi mál betur," segir Brynjólfur. Hann segir rekstur búðar sinn ganga vel og viðskiptavinir sýni þeim traust.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .