Fjöldi starfandi á íslenskum vinnumarkaði hefur aðeins einu sinni mælst jafn mikill en í maí eða rúmlega 201 þúsund, fjöldinn var sá sami í júní í fyrra. Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans. Sé litið á meðaltal síðustu 12 mánaða hafa tæplega 195 þúsund verið starfandi að meðaltali á síðustu 12 mánuðum. Fjölgun starfandi fólks á vinnumarkaði var nokkuð stöðug fram á mitt síðasta ár sé miðað við 12 mánaða meðaltal. Síðan hefur fjölgun starfsfólks verið hægari.

Íbúafjöldi hefur aukist töluvert á síðasta ári og ber að skoða þessar tölur með hliðsjón af því. Samanburður á maí 2017 og 2018 sýnir að vinnuaflið jókst um 6 þúsund manns og hlutfall þess af mannfjölda lækkaði um 1,3 prósentustig.

Fjöldi starfandi jókst hins vegar um rúmlega 8 þúsund manns og hlutfall þeirra af mannfjölda lækkaði um 0,3 prósentustig. Þessar tölur benda því til þess að spennan á vinnumarkaði fari minnkandi.