Jeremy Tai Abbett, er hönnuður frá Bandaríkjunum, en nú býr hann í Þýskalandi þar sem hann hefur tekið saman við fyrirtækið InsurTech.vc, sem einblínir annars vegar á möguleika tækniþróunar á tryggingamarkaðnum og hins vegar tekur hann að sér ráðgjafastörf, þar á meðal fyrir íþróttavörufyrirtækið Nike og bílaframleiðandann Porsche.

Áður hefur hann meðal annars verið í ráðgefandi hlutverki fyrir BMW og fleiri fyrirtæki, auk þess að starfa síðustu árin við að virkja sköpunarkraft meðal starfsmanna Google. Abbett segir að Nike þurfi að nýta sér tækni og samfélagsmiðla betur í sinni markaðssetningu.

„Nike er framarlega í auglýsingum í gegnum styrki í íþróttaheiminum, en ungt fólk í dag horfir nánast ekkert á línulega dagskrá í sjónvarpi, heldur miklu frekar myndbönd á youtube sem dæmi, svo það er eitt af því sem Nike þarf að nýta sér í meira mæli og skilja hvernig það geti nýtt sér,“ segir Abbett.

„Fyrir Porsche snýst þetta meira um að auka samskipti innan fyrirtækisins. Áskorun þeirra er sú að allt í einu eru komin fram fyrirtæki eins og Google og Tesla og aðrir nýir aðilar inn á rótgróna markaði og sem eru til dæmis farin að leiða framþróunina í bílaiðnaðinum.“

Rótgróin fyrirtæki í vanda

Abbett segir að því miður sé það þannig að flest fyrirtæki, og það sem meira máli skiptir einstaklingar, séu ekki vanir því að geta efast um hvers vegna þau geri það sem þau séu að gera og spyrja spurninga.

„Sköpun snýst um það að óttast ekki að spyrja spurninga. Vélar geta svarað spurningum betur heldur en fólk en í flestum tilfellum geta þær ekki spurt spurninga og þar kemur sköpunarkrafturinn inn,“ segir Jeremy.

„Það er grunnhugmyndin að því hvernig við getum notað sköpunargleði í fyrirtækjarekstri, en oft hugsar fólk sér sköpunargleði einungis sem getuna til að teikna eða eitthvað álíka.“

Abbett segir það nauðsynlegt að starfsfólk fyrirtækja geti óhrætt sett fram spurningar en þá verða stjórnendur og leiðtogar einnig að geta komið með viðeigandi viðbrögð við þeim.

„Málið er að við erum öll fædd með sköpunarkraft, en þó ég viti nú ekki alveg hvernig íslenska skólakerfið er, þá er nútímafyrirkomulag náms almennt byggt á grunni þarfa iðnvæðingar nítjándu aldar, sem allt gengur út á einkunnir,“ segir Abbett sem hann segir draga úr því að fólk spyrji spurninga.

„Það verður að skapa menningu þar sem þú hefur það á tilfinningunni að þú getir spurt spurninga og ekki fundist eins og sett yrði ofan í þig fyrir að vera heimskur eða líta út fyrir að vita ekki hvað þú sért að gera.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .