Hjalti Pálsson hefur verið ráðinn til franska bílaframleiðandans PSA Group, framleiðanda Peugeot, Citroën og Opel bíla, til að stýra markaðssetningu rafbíla í stafrænum miðlum. Hann segir að starfið hafi í raun verið búið til fyrir sig.

„Þetta starf var ekki til áður, þannig að allt sem ég geri er í raun nýtt. Það er frábært tækifæri, sem ég gat ekki hafnað þó að auðvitað sé erfitt að vera fjarri fjölskyldunni og kærustunni heima á Íslandi,“ segir Hjalti en hann var áður í starfsnámi hjá fyrirtækinu sem hluta af meistaranámi hans í stafrænni markaðssetningu.

„Fyrirtækið selur bíla í um 160 löndum. Eins og er stýri ég sölu rafbíla innan Evrópu, en fyrirtækið mun fljótlega hefja markaðssetningu rafbíla í Bandaríkjunum. Starfið felst í  að nýta samfélagsmiðla í markaðssetningu rafbíla, þjálfa og efla sölufólk í því hvernig eigi að selja rafbíla og margt fleira.“

Hjalti ólst upp frá sex ára aldri í Frakklandi þar til fjölskylda hans flutti aftur heim þegar hann var 15 ára gamall.

„Ég byrjaði í viðskiptafræði í Háskóla Íslands, fór síðar á tennisstyrk í háskóla í Miami í Bandaríkjunum en síðar fór ég í Bandaríska háskólann í Róm til að geta klárað BS-gráðuna mína og þannig nýtt einingarnar frá Íslandi og Bandaríkjunum,“ segir Hjalti en meistaranámið í Frakklandi.

„PSA Group er næststærsti bílaframleiðandinn í Evrópu á eftir Volkswagen, og númer fimm í heiminum, en fyrirtækið keypti nýlega Opel. Rafmagnsbílar fyrirtækisins eru mjög vinsælir, sérstaklega í stórborgum Evrópu enda litlir og þægilegir. Í París er til dæmis mengunin ansi mikil og það koma dagar, 10 til 20 á ári, þar sem hefðbundnir bensín- eða dísilbílar mega ekki fara inn í miðborgina, en þá má keyra um á rafmagnsbílum.

Á næstu árum koma svo frá fyrirtækinu bílar með um 350 til 400 km drægni líkt og Tesla er með í dag svo það stefnir í að verða góð ár fram undan hjá fyrirtækinu. Við Íslendingar ættum með okkar góða aðgengi að rafmagni að sýna fordæmi og einbeita okkur að rafbílum enda trúi ég að þeir séu framtíðin fyrir okkur og komandi kynslóðir.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .