Starfsemi Altech Iceland ehf. hefur verið hætt og hefur Jón Hjaltalín Magnússon verkfræðingur hætt sem framkvæmdastjóri félagsins. Jón á 25% hlut í félaginu á móti Norðmönnunum sem hafa ákveðið að flytja starfsemi félagsins til Noregs í fyrirtækið Altech Norway AS, sem hefur sömu eigendur.

Í samtali við Viðskiptablaðið staðfesti Jón Hjaltalín að ágreiningur væri á milli hans og norsku eigendanna um að leggja niður starfsemina á Íslandi og flutning félagsins til Noregs, en hann hefir nú lokið fimm ára samningsbundnu starfi hjá félaginu. Jón sinnir núna ýmsum öðrum þróunarverkefnum. Jón sagði að hinir norsku eigendur Altech Norway AS hefðu krafist þess að eignast hans hlut í félaginu því þeir ætli sér að byggja upp stórt norskt fyrirtæki á þessu sviði, en niðurstaða þess máls liggur ekki fyrir.

Jón vildi ekki tjá sig meira um málið að svo stöddu. Altech var byggt upp í kringum tugi höfundaréttarhugmynda sem Jón Hjaltalín hefur þróað í gegnum tíðina og hafði selt búnað til yfir tuttugu álvera víða um heim.