Gróska, nýtt hugmyndahús í Vatnsmýri sem ætlað er að verða suðupottur nýsköpunar  og samstarfs háskóla og atvinnulífs, rís á svæði Vísindagarða Háskóla Íslands á næstu misserum.

Stefanía G. Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri CCP á Íslandi, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, tóku fyrstu skóflustunguna að nýbyggingunni í gærdag að viðstöddu fjölmenni.

Þegar hefur verið ákveðið að alþjóðlegi leikjaframleiðandinn CCP flytji skrifstofur sínar frá Grandagarði í nýbygginguna, sem verður að Bjargargötu 1 (áður Sturlugata 6), við hliðina á húsi Íslenskrar erfðagreiningar.

Það er í samræmi við samkomulag sem fyrirtækið gerði við Vísindagarða Háskóla Íslands sumarið 2015. Með flutningunum skapast aukin tækifæri til samstarfs milli CCP og háskólasamfélagsins á sviði tækniþróunar, rannsókna og nýsköpunar.

Nýbyggingin verður alls 17.500 fermetrar að stærð á fjórum hæðum auk bílakjallara og er gert ráð fyrir að fleiri öflug fyrirtæki af ýmsum stærðum geti leigt rými þar og þróað áfram hugmyndir sínar.