Starfsemi dómstóla landsins verður takmörkuð næstu fjórar vikur til að bregðast við þeirri stöðu sem uppi er vegna veirufaraldursins sem nú geisar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá dómstólasýslunni.

Í tilkynningunni kemur fram að starfsemi Hæstaréttar muni verða óbreytt nema ósk komi frá aðilum máls um að fresta máli. Starfsemi héraðsdómstóla og Landsréttar verður hins vegar nokkuð breytt.

Í héraði munu regluleg dómþing áfram fara fram. Í héraði og Landsrétti verða barnaverndarmál áfram flutt, mál sem varða nauðungarvistanir og önnur mál eftir lögræðislögum sem ekki þola bið sem og aðalmeðferðir í sakamálum þar sem sakborningur sætir gæsluvarðhaldi. Milliþinghöld í einkamálum munu fara fram og munnlegur málflutningur í málum þar sem aðilar og vitni þurfa ekki að gefa skýrslu. Í síðastnefndu málunum geta aðilar óskað eftir því að fá frest.

Markmiðið með breytingunni er greinilega að sporna við frekari útbreiðslu Covid-19 veirunnar með því að aðilar og vitni þurfi ekki að koma í dómshús til skýrslugjafar. Komi fram beiðni frá aðila um að mál verði flutt engu að síður segir Benedikt Bogason, formaður dómstólasýslunnar, að slík beiðni yrði metin í hverju tilfelli fyrir sig en að meginlínan sé sú að aðilar og vitni séu ekki kvödd til skýrslugjafar.