Íslandsbanki hf. hefur ákveðið að gera skipulagsbreytingar til að undirstrika mikilvægi Noregs sem heimamarkaðar ásamt Íslandi. Starfsemin í Noregi verður sjálfstætt viðskiptasvið innan félagsins. Kaupin á Kredittbanken og BNbank gera Íslandsbanka að íslensk-norsku félagi ásamt því að skapa vaxtartækifæri og nær tvöfalda efnahagsreikning bankans. BNbank verður hluti af samstæðunni frá 1. apríl 2005.

Frank O. Reite framkvæmdastjóri yfir starfsemi í Noregi

Frank O. Reite verður framkvæmdastjóri sviðsins og tekur um leið sæti í framkvæmdastjórn Íslandsbanka. Hann verður stjórnarformaður Kredittbanken og mun halda áfram sem forstjóri Kredittbanken þar til ráðið verður í hans stað. Gunnar Jerven er forstjóri BNbank og mun þróa BNbank frekar sem leiðandi banka á húsnæðislánamarkaði í Noregi.

Markmiðið með breytingunum er að skerpa á stefnu Íslandsbanka og nýta þau vaxtartækifæri sem skapast hafa með stækkun félagsins í Noregi. Einnig að samhæfa starfsemina í Noregi og byggja hana upp með stjórnendum sem þekkja vel til norska markaðarins.

Frank Reite hefur verið forstjóri Kredittbanken síðan í apríl 2004. Hann átti sæti í framkvæmdastjórn Aker frá 2000 til 2004 og sat fyrir hönd félagsins í fjölmörgum stjórnum, m.a. Norway Seafoods og Aker Yards. Hann gegndi ýmsum stjórnunarstöðum fyrir Norway Seafoods á árunum 1996 til 2000 og vann árið 1995 að skipulagningu starfsemi RGI í sjávarútvegi í Seattle og Ósló. Áður var hann lánasérfræðingur hjá CBK í Seattle á árunum 1993 til 1994. Hann lauk viðskiptagráðu frá Viðskiptaháskólanum í Ósló árið 1993.

Fyrirtækjaráðgjöf á Íslandi hluti af Fjárfestinga- og alþjóðasviði

Samhliða þessu verða gerðar breytingar á Fjárfestinga- og alþjóðasviði sem ætlað er að efla enn frekar sókn félagsins á alþjóðavettvangi. Fjárfestinga- og alþjóðasvið hefur með höndum uppbyggingu bankans á alþjóða vettvangi, þar á meðal alþjóða lánastarfsemi og ráðgjöf til erlendra aðila, m.a. í gegnum útibú bankans í London og Lúxemborg.

Fjárfestinga- og alþjóðasvið mun halda utan um viðskiptasambönd við fyrirtæki sem hafa haslað sér völl eða stefna á vöxt á alþjóða markaði. Einnig mun Fyrirtækjaráðgjöf á Íslandi færast undir Fjárfestinga- og alþjóðasvið. Jón Diðrik Jónsson er framkvæmdastjóri Fjárfestinga- og alþjóðasviðs og á sæti í framkvæmdastjórn Íslandsbanka.

Aðrir sem eiga sæti í framkvæmdastjórn Íslandsbanka eru Finnur Reyr Stefánsson, framkvæmdastjóri markaðsviðskipta, Haukur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptabankasviðs, Tómas Kristjánsson, framkvæmdastjóri Áhættustýringar, og Þorgils Óttar Mathiesen, forstjóri Sjóvá.

?Íslandsbanki hefur náð þeim markmiðum sem stefnt var að í Noregi með kaupum á BNbank og Kredittbanken og er orðinn ein af tíu stærstu fjármálastofnunum á Norðurlöndum. Nú þarf að byggja á þeim árangri sem náðst hefur. Í því skyni er mikilvægt að horfa til þekkingar og reynslu starfsfólksins og nýta þann kraft sem býr í félaginu til hagsbóta fyrir viðskiptavini," segir Bjarni Ármannsson, forstjóri Íslandsbanka.