Á þingmálaskrá Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, eru fjögur mál sem snerta íbúðamarkaðinn. Frumvörpin byggja öll á vinnu verkefnastjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála sem í maí síðastliðnum skilaði viðamiklum tillögum. Segja má að kjarninn í þeim tillögum hafi verið að taka upp nýtt húsnæðislánakerfi og efla leigumarkaðinn.

Eygló mun leggja tvö af þessum frumvörpum fram nú fyrir áramót en það er annars vegar frumvarp til laga um húsnæðismál og hins vegar um húsnæðisbætur. Eftir áramót hyggst hún leggja fram frumvarp til laga um húsnæðissamvinnufélög og breytingu á húsaleigulögum.

Breytingar á Íbúðalánasjóði

Í skýrslu verkefnastjórnar kemur fram að gera verði breytingar á starfsemi Íbúðalánasjóðs. Spurð hvort hlutverki Íbúðalánasjóðs verði breytt samkvæmt þessum frumvörpum svarar Eygló:

„Unnið er að frumvarpi til laga um húsnæðismál sem er í samræmi við tillögur verkefnastjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála frá því í vor. Gert er ráð fyrir að sérstök húsnæðislánafélög annist almennar lánveitingar, þar sem áhersla er lögð á gagnsæi milli fjármögnunar til fasteignalánveitinga til almennings og þeirra lánskjara sem lántakendum býðst. Þess ber þó að geta að öðrum fjármálastofnunum verður áfram heimilt að veita húsnæðislán að teknu tilliti til þeirra reglna er gilda um rekstur slíkra fjármálafyrirtækja.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .