Starfsemi Icelandair í sumar verður sú mesta í 70 ára sögu félagsins og alls munu rúmlega 600 flugfreyjur og flugþjónar starfa hjá félaginu í sumar. Icelandair hefur einnig ráðið og þjálfað í vor 22 flugmenn til starfa þannig að alls munu 322 flugmenn munu starfa hjá félaginu í sumar og hafa þeir aldrei verið fleiri. Það verða því nálægt eitt þúsund manns í flugáhöfnum Icelandair í sumar segir í frétt félagsins


Icelandair útskrifar í dag, föstudaginn 27. apríl, 85 flugfreyjur og flugþjóna sem verið hafa í þjálfun hjá félaginu í vor og eru nú að hefja sumarstörf hjá félaginu. Útskriftin fer fram á Nordica Hótel, þar sem öllum þeim sem lokið hafa þjálfun hefur verið boðið til útskriftarhátíðar.


Í frétt félagsins kemur fram að stærð hópsins endurspeglar þá staðreynd að sumaráætlun Icelandair hefur aldrei verið jafn umfangsmikil og í ár og sömuleiðis hefur leiguflugsstarfsemi, sem Icelandair annast fyrir systurfélagið Loftleiðir aukist.

Icelandair mun í vor hefja flug til nýrra áfangastaða - Bergen í Noregi, Gautaborgar í Svíþjóð og Halifax í Kanada, en auk þess mun félagið fljúga að morgni til frá Keflavík til Boston og New York. Flugið til Bergen og Gautaborgar bætist við fjölmargar ferðir félagsins til höfuðborga Norðurlandanna fjögurra, þ.e. Kaupmannahafnar, Osló, Stokkhólms og Helsinki. Alls mun Icelandair fljúga að meðaltali um 10 sinnum á dag frá Íslandi til hinna Norðurlandanna á næsta sumri.

Auk þess að taka upp flug til þessara þriggja nýju áfangastaða, mun Icelandair auka tíðni í flugi til Parísar, Berlín, Amsterdam og Helsinki frá því sem var á síðastliðnu sumri. Icelandair flýgur í sumar frá Íslandi til 25 áfangastaða í Evrópu og Bandaríkjunum.