Starfsfólk Fiskistofu hefur sent frá sér ályktun þar sem það gagnrýnir harðlega ákvörðun Sigurðar Inga Jóhannssonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, um flutning höfuðstöðva stofnunarinnar til Akureyrar.

Segir í ályktun starfsmannanna að fyrirætlanirnar séu löglausar. Það sé ljóst að ákvörðunin styðjist ekki við lagaheimild og sé til þess fallin að skaða starfsemi stofnunarinnar, enda hafi engir starfsmenn utan Fiskistofustjóra lýst áhuga á að flytjast með henni norður. Hvetja starfsmennirnir ráðherra til þess að falla þegar í stað frá hugmyndunum.

Þá er þeim áformum mótmælt að starfsmenn sem ekki hyggist fylgja störfum sínum norður yrðu þvingaðir til þess að segja sjálfir upp störfum, þar sem þeir gætu átt á hættu að glata þeim réttindum, sem þeir ella hefðu, ef slit á ráðningarsambandi væri á ábyrgð vinnuveitanda. Segir í ályktuninni að vinnubrögð af þessu tagi ættu ekki að tíðkast í siðuðu samfélagi.