Suður-afríski hlauparinn Oscar Pistorius, sem hleypur á gervifótum frá Össuri hf, á möguleika á að keppa á Ólympíuleikunum í Peking, nái hann tilskyldum lágmörkum. Áfrýjunardómstóll alþjóða-frjálsíþróttasambandsins felldi í dag úr gildi fyrri ákvörðun sambandsins um að Pistorius mætti ekki keppa á mótum Alþjóða frjálsíþróttasambandsins þar sem gervifætur hans voru taldir veita honum óeðlilegt forskot á aðra keppendur. Í fréttatilkynningu frá Össuri segir að Pistorius hafi lengi barist fyrir því að fá að keppa við ófatlaða einstaklinga, enda hafi hann náð afbragðsgóðum árangri á hlaupabrautunum undanfarin misseri.

Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar, segir niðurstöðuna mikið gleðiefni fyrir starfsfólk Össurar. „Við fögnum þessum úrskurði ákaft. Þetta er sögulegur dagur fyrir Oscar sem og aðra aflimaða íþróttamenn. Nú hefur öllum hindrunum verið rutt úr vegi og ég er sannfærður um að Oscar mun slá í gegn og bylta viðteknum hugmyndum um  afreksfólk í íþróttum. Kjörorð okkar hjá Össuri er að fólk eigi að geta lifað lífinu án takmarkana. Þess vegna fögnum því að mál Oscars hafi loksins fengið þá faglegu umfjöllun sem það verðskuldar. Frá og með deginum í dag er framtíðin orðin miklu bjartari fyrir þær aflimaðu íþróttahetjur um allan heim sem þurfa að sigrast á takmörkunum sínum á hverjum einasta degi.