Atkvæðagreiðslu um kjarasamning AFLs og RSÍ við Alcoa Fjarðaál lauk í gær og var hann samþykktur af 93,6% greiddra atkvæða. Á kjörskrá voru 457 starfsmenn og var kjörsókn 72,4%. Samningurinn gildir til þriggja ára, afturvirkt frá 1. mars 2020.

„Helstu breytingar í nýjum samningi eru launahækkanir og vinnutímastytting, hvort tveggja í líkingu við það sem samið hefur verið um nýlega hjá hinum íslensku álverunum tveimur og í samræmi við Lífskjarasamninginn,“ segir í tilkynningu frá Alcoa.

Tor Arne Berg forstjóri Alcoa Fjarðaáls kveðst ánægður með samninginn og þann mikla stuðning sem hann fékk meðal starfsmanna í atkvæðagreiðslunni. Hann telur að samningurinn feli í sér mikla kjarabót fyrir starfsfólk Fjarðaáls.