*

föstudagur, 23. október 2020
Erlent 28. ágúst 2020 08:25

Starfsfólk stefnir Uber vegna hlutabréfa

Stefnendurnir telja sig hafa tapað samanlagt átta milljónum dollara þar sem fyrirtækið flýtti útgáfu á hlutabréfum í starfssamningum.

Ritstjórn

Um tvö hundruð núverandi og fyrrum starfsmenn Uber hafa lögsótt fyrirtækið. Þeir ásaka farveituna um að tapa „áhættusömu veðmáli“ sem hafi leitt til að starfsfólk sitji uppi með milljónir dollara í aukna skattskyldu eftir skráningu fyrirtækisins á markað í fyrra. Financial Times greinir frá

Stefnan, sem var lögð fram til undirréttar í Kaliforníu í gær, heldur því fram að Uber hafi vísvitandi, og án réttmæts leyfis, sett starfsfólk í hættu á hærri skattgreiðslum í því tilviki að gengi hlutabréfa myndi lækka í kjölfar frumútboðs, sem það gerði. Uber segir staðhæfinguna ekki eiga við rök að styðjast.

Nokkur þúsund starfsmenn Uber höfðu haft ákvæði um hlutabréfahlunnindi í starfssamningum. Samkvæmt þeim átti útgáfa hlutabréfa starfsmanna að fara fram sex mánuðum eftir frumútboðið. Uber sendi hins vegar bréf til starfsfólks þann 6. maí 2019, nokkrum dögum fyrir skráningu á markað, þar sem fram kom að útgáfa hlutabréfa starfsmanna yrði flýtt til dagsetningar frumútboðsins. 

Í bréfinu kom fram að það væri í hag bæði starfsmanna og fyrirtækisins. Flýting útgáfunnar leiddi til þess að fyrirtækið gat fest þá fjárhæð sem það greiddi í skatt fyrir hönd starfsmanna og þar með fjarlægt óvissu í kringum fjárhagslega frammistöðu Uber í framtíðinni.

Fyrir vikið varð tekjuskattur sem starfsfólk þurfti að greiða fyrir hlutabréfin reiknaður út frá verði hlutabréfa við útboðið fremur en sex mánuðum síðar þegar þegar þeir myndu selja hlutabréfin. Gengi Uber féll um 40% í millitíðinni. 

Þeir 190 einstaklingar sem stefndu fyrirtækinu halda því fram að þeir hafi tapað samanlagt átta milljónum dollara. Því er haldið fram að ákvörðunin um að flýta útgáfu hlutabréfa starfsfólks hafi ekki verið gerð í samráði við þá. 

Stikkorð: Uber