Frá stofnun embættis Umboðsmanns skuldara í ágúst 2010 hafa borist 3914 umsóknir um greiðsluaðlögun einstaklinga. Þar af hefur 505 málum verið lokað með samningum en alls er 1.122 málum lokið. Hjá embættinu starfa nú tæplega 90 manns en voru í janúarbyrjun 78.

„Það er misjafnt hve langan tíma tekur að afgreiða umsóknir en almennt eru það kannski 6-7 mánuðir. Það tekur auðvitað tíma að vinna hvert mál, ekki bara að sækja upplýsingar um skuldir og tekjur heldur þurfa mál líka að bíða á meðan önnur eru kláruð. Það er verið að vinna upp fjölda umsókna sem bárust síðasta sumar. Héðan fara málin til umsjónarmanna og sem tekur almennt 3 mánuði til viðbótar.“ Þetta segir Svanborg Sigmarsdóttir, upplýsingafulltrúi Umboðsmanns skuldara, um afgreiðslutíma hjá embættinu.

Samkvæmt lögum um umboðsmann skuldara er embættið fjármagnað af fjármálafyrirtækjum, Íbúðalánasjóði og lífeyrissjóðum með greiðslu sérstaks gjalds. Framlög til embættisins á fjárlögum fyrir árið 2012 voru 1.050 milljónir króna. Á árinu 2011 voru framlögin 600 milljónir króna og hafa því nærri verið tvöfölduð. Aukningin er rökstudd í nefndaráliti meirihluta fjárlaganefndar á seinni hluta árs 2011 en þar er meðal annars bent á að umboðsmaður hyggi á stórátak til að ljúka afgreiðslu meginhluta þeirra mála sem tilbúin séu til vinnslu hjá umsjónarmönnum embættisins.

Nánar er farið yfir stöðu verkefna og forsendur aukinna fjárlaga til embættisins í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.