Dröfn Guðmundsdóttir, mannauðsstjóri Origo, segir að fjarvinna verði áfram við lýði eftir COVID og að fólk kunni að meta það sjálfstæði sem það hefur. Hún telur einnig að ef fleiri vinna heima til frambúðar kalli það á breytta nýtingu skrifstofuhúsnæðis.

Dröfn segir að niðurstöður úr vinnustaðagreiningu hjá Origo sýni að starfsfólki líði vel í vinnunni og jafnvel betur en áður og sjá megi umtalsverða hækkun í heildarstarfsánægju milli ára.

„Við höfum innleitt fjarvinnustefnu og munum áfram styðja fólk okkar til heimavinnu. Það hefur sýnt sig að margir kunna vel að meta heimavinnu og vilja vinna áfram, a.m.k. að hluta heima þegar takmarkanir vegna COVID eru hjá. Fólk kann að meta það sjálfstæði sem það hefur að geta stýrt því hvar það vinnur. Ég tel að þetta verði nokkuð almennt á vinnustöðum eftir COVID. Við höfum líka séð jákvæð áhrif á kolefnisfótspor starfsmanna, sem vinna heima og spara ferðir til og frá vinnu," segir Dröfn.

Hún segir einnig tækifæri í að horfa á skipulag húsnæðis þannig að það þjóni starfsfólki sem best.

„Við erum einmitt byrjuð að skoða með starfsfólki okkar, hvernig við getum hannað húsnæðið þannig að það styðji betur við samvinnu og nýsköpun. Það er viðbúið að starfsfólk mun í meira mæli vilja vera heima þegar það er í einbeitingarverkefni eða rútínuverkefni, en kjósa að koma á vinnustaðinn í verkefnum sem kalla á samvinnu, frjóa skapandi hugsun og „dýnamíska" vinnu. Þá þarf vinnumhverfið að styðja við það."

Lærðu heilan helling af COVID

„Við byrjuðum árið á að tala um fordæmalausa tíma sem þeir voru og eru enn nú þegar árið er á enda. Við erum að ganga í gegnum gríðarlega miklar breytingar sem samfélag og það hefur sín áhrif á vinnustaði," segir Dröfn.

„Fyrirtæki sem hafa fylgt tækninni eftir voru nokkuð vel í stakk búin að takast á við heimavinnu starfsfólks þegar faraldurinn skall á. Nú þykir okkur ekkert eðlilegra en að fara á Teams / Zoom fund hér innanbæjar eða þvert á landið eða landamæri.

Það verður að viðurkennast að við höfum lært heilan helling á COVID og þó við viljum gjarnan sprengja þetta ár í eitt skipti fyrir öll með nokkrum rakettum um áramót, þá er gott að staldra við og draga lærdóm af því jákvæða sem við tökum með okkur inn í næstu ár."

Aðspurð hvernig hægt er að hvetja fólk áfram og stuðla að jákvæðri liðsheild þegar stór hluti starfsfólks vinnur fjarri vinnustaðnum svarar Dröfn:

„Við lögðum þann tón í upphafi faraldursins að við myndum setja öryggi og sóttvarnir starfsfólks og viðskiptavina í fyrsta sæti. Þeir sem gátu unnið heima, gerðu það. Þar á meðal flestir stjórnendur fyrirtækisins.

Við lögðum áherslu á daglega snertingu og hvöttum alla stjórnendur til að hafa stutta morgunfundi, svokallað „hanagal" á Teams þar sem starfsfólk kemur saman í byrjun dags og fer yfir áskoranir dagsins, hvað hefur gengið vel og hvort fólk þurfi stuðning. Slíkir fundir færa starfsfólk nær hvort öðru og ýta undir traust og samvinnu."

Mikilvægt er að halda uppi gleði og velllíðan á vinnustað á nýjum tímum, en spurð hvernig sé hægt að efla samheldni þvert á fyrirtæki þegar flestir eru heima, svo allir rói í sömu átt, svarar hún:

„Samhliða daglegum fundum teyma höfum við lagt mikið upp úr daglegri upplýsingagjöf á Workplace, innra netinu okkar. Þar búum við til stemmningu í kringum hvað við erum að gera, um þá þjónustu sem við veitum, þær lausnir og vörur sem við seljum og segjum frá því hvaða árangri við höfum náð."

Að mati Drafnar ýti það undir samheldni og stolt.

„Við höfum líka boðið upp á ótal viðburði fyrir starfsfólk, í formi fræðslu eða skemmtunar sem fræða, efla og skemmta og brjóta upp daginn. Við höfum lagt mikla áherslu á að hætta ekki við neitt heldur hugsa hlutina upp á nýtt. Núna í desember er t.d. boðið upp á jólatónleika á Zoom, jóladagatal með daglegum heimaæfingum, starfsfólki boðið að sækja hátíðarmat frá matreiðslumeisturum Origo og ýmis fræðsluerindi sem er streymt," segir Dröfn.

Aðspurð hvernig fólki líði almennt að vinna heima, og hvort ekki sé komin Zoom þreyta í fólk svarar hún:

„Jú, vissulega hefur COVID áhrif á okkur öll og við viljum gjarnan fara að hittast og knúsast. En við höfum gert reglulegar mælingar frá upphafi COVID á líðan starfsfólks og vorum að ljúka við stóra vinnustaðagreiningu. Niðurstöður sýna að starfsfólki Origo líður vel í vinnunni og jafnvel enn betur en áður."

Jafnframt segist Dröfn að umtalsverð hækkun í heildarstarfsánægju sjáist á milli ára.

„Starfsfólk er að fá tíðari og betri endurgjöf og það upplifir að það hafi meiri tækifæri nú en áður til að þróast í starfi. Einnig telur starfsfólk sig frekar vera að nýta styrkleika sína í starfi. Við sjáum einnig að fólk kann að meta þann sveigjanleika sem það hefur í vinnunni og stoltið af því að vinna hjá Origo mælist mjög hátt," segir Dröfn.

„Við höfum lagt mikla áherslu á vellíðan, sjálfstæði og traust hjá Origo. Við erum því gríðarlega stolt af því að sjá að þrátt fyrir miklar breytingar vegna COVID að ná þessum árangri í vinnuumhverfi okkar. Við erum allavega bjartsýn á framhaldið. Við höfum haldið uppi gleði og vellíðan hjá Origo fyrir og eftir COVID og munum halda áfram á þeirri braut."