Saga Fjárfestingarbanki hyggur á hlutafjáraukningu, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Hluti núverandi hluthafa sem blaðið ræddi við ætla ekki að taka þátt í henni. Saga tilkynnti á föstudag að bankinn muni flytja höfuðstöðvar sínar frá Akureyri til Reykjavíkur en þær hafa verið fyrir norðan frá því að bankinn hóf starfsemi haustið 2006. Starfsstöð Sögu á Akureyri verður lokað frá og með morgundeginum, 1. júní.

Dr. Hersir Sigurgeirsson, forstjóri Sögu Fjárfestingarbanka, segir sex starfsmenn missa vinnuna vegna þessara aðgerða. Eftir verði 16 starfsmenn í höfuðstöðvum bankans á 14. hæðinni í Höfðatorgi. "Það er ekki von á fleiri samdráttaraðgerðum. Þeim er endanlega lokið."  Hersir vildi hvorki játa því né neita að hlutafjáraukning væri fyrirhuguð. Í fyrra réð Saga til sín átta nýja starfsmenn. Starfsmönnum bankans hefur hins vegar fækkað um tæplega helming frá því um áramót.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun, miðvikudag. Meðal annars efnis í blaði morgundagsins er:

  • Samið um skaðabætur vegna olíusamráðsins
  • Hætta á spekileka frá Íslandi
  • Lýsing uppfyllir skilyrði Fjármálaeftirlitsins
  • Fyrirhugaðar breytingar á stjórnun fiskveiða nýr óvissuþáttur
  • Tryggingafræðileg staða lífeyrissjóða er áhyggjuefni
  • Stefna Ingólfs Guðmundssonar gegn FME
  • Viðtal við Árna Hauksson og Hallbjörn Karlsson, kjölfestufjárfesta í Högum
  • Veiði: Seiðin lifðu af öskufallið