Vátryggingafélag Íslands hf. (VÍS) varð til árið 1989 við samruna Brunabótafélags Íslands og Samvinnutrygginga. VÍS stundar almenna tryggingastarfsemi og býður alhliða tryggingalausnir fyrir einstaklinga, fjölskyldur, fyrirtæki, sveitarfélög og stofnanir.

Sigrún Ragna Ólafsdóttir, forstjóri VÍS, segir að frábært starfsfólk sé grunnurinn að góðum árangri í rekstrinum, en fyrirtækið situr í 17. sæti á lista Creditinfo yfir framúrskarandi fyrirtæki.

„Liðsheildin tryggir ánægða og trausta viðskiptavini um land allt,“ segir Sigrún Ragna. „Starfsmenn eru með í ráðum við stefnumótun fyrirtækisins og hafa því sitt að segja um kúrsinn. Í því skyni held ég reglulega fundi með þeim í misstórum hópum þar sem kallað er eftir skoðunum allra og við stillum saman strengi. Um þessar mundir leggjum við áherslu á að einfalda og straumlínulaga reksturinn með það að markmiði að bæta þjónustuna enn frekar og lækka rekstrarkostnað.“

Nánar í sérblaði Viðskiptablaðsins um framúrskarandi fyrirtæki sem unnið var í samstarfi Creditinfo. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .