Samantekt Frjálsrar verslunar leiðir í ljós að á fyrstu öld sinni, frá 16. febrúar 1920 til 15. febrúar 2020, hafi Hæstiréttur kveðið upp 25 þúsund dóma og 710 betur. Fyrstu árin fór hann rólega af stað, 34 dómar voru kveðnir upp fyrsta árið og þrjátíu árið eftir. Áratug síðar náði dómstóllinn að rjúfa hundrað dóma markið og á hálfrar aldar afmælinu voru dómarnir 146. Dómum hefur iðulega fjölgað samhliða samdrætti í efnahagslífinu og þótti mörgum nóg um á níunda áratugnum en þá voru uppkveðnir dómar í fyrsta sinn fleiri en 300 á á einu ári. Hámarki var náð árið 2013 en þá kvað rétturinn upp 764 dóma. Mikill samdráttur hefur orðið í kjölfar stofnun Landsréttar enda ekki hægt að skjóta málum sjálfkrafa þaðan til Hæstaréttar. Fimmtíu dómar voru kveðnir upp í fyrra og það sem af er ári hefur Hæstiréttur lokað fjórum málum.

Dómarnir eru eðli málsins samkvæmt jafn misjafnir og þeir eru margir. Fyrsti dómurinn sem kveðinn var upp snerist um deilu Sveins Magnússonar í Setbergi og Ingibjargar Þorsteinsdóttur frá Bjargi um tilkall til rekaspýtu sem rak undan lóð Sveins en sá var dæmdur til að greiða Ingibjörgu 65 krónur auk 12 króna í málskostnað vegna spýtunnar. Síðasti dómurinn sem kveðinn var upp fyrir aldarafmælið fól hins vegar í sér ómerkingu á dómi Landsréttar í forsjársviptingarmáli sökum réttarfarsannmarka. Óhætt er að fullyrða að hinir dómarnir 25.708 spanni allt litrófið þar á milli.

Það felst í eðli dómsúrlausna að eftir að þær hrósar annar aðilinn sigri meðan hinn situr eftir með sárt ennið. Sumir bera harm sinn í hljóði en aðrir hrópa fúkyrði fram af fjallstoppum, á samfélagsmiðlum eða úttala sig í fjölmiðlum. Markús Sigurbjörnsson, sem nýverið lét af embætti hæstaréttardómara eftir að hafa setið í dóminum frá 1994, gerði þetta meðal annars að umtalsefni í erindi sínu, Hæstiréttur í aldarspegli, á afmælissamkomu sem fram fór í Þjóðleikhúsinu um miðjan síðasta mánuð.

Í tölu sinni skautaði Markús yfir fyrstu starfsár réttarins og þær deilur sem þá ríktu um fyrirkomulag við veitingu dómaraembættis og þau lög sem giltu um réttinn. „Í sögu Hæstaréttar hafa þessi fyrstu fimmtán ár ákveðna sérstöðu þótt seint verði sagt að samfelld kyrrð hafi ríkt allar götur síðan. Nú kynni einhver að spyrja hví verið væri að rekja þessa löngu liðnu atburði á hátíð út af aldarafmæli? Í mínum huga er svarið næsta einfalt. Bara einfaldlega að spyrja á móti, minnir eitthvað í þessari lýsingu á atburði samtímans?“ sagði Markús.

Benti hann á að við stofnun millidómstigs hafi verið viðraðar hugmyndir um að leggja Hæstarétt niður og koma á fót nýju æðsta dómstigi. Deilur undanfarinna ára, sem meðal annars spruttu upp vegna stofnunar Landsréttar, um hvernig eigi að standa að vali á dómurum væru „eins og endurflutningur á áratuga gömlum leikþætti nema að vísu hefðu einhverjir stjórnmálaflokkar skipt um hlutverk.“

„Það verður ekki horft framhjá því að ýmsir kunni af ýmsum ástæðum, og ekki alltaf málefnalegum, að líta Hæstarétt eða dómendur þar neikvæðum augum. Að nokkru kann að mega rekja þetta til þeirrar staðreyndar að þegar leyst hefur verið úr tugþúsundum dómsmála hafa nánast jafnmargir einstaklingar, forráðamenn félaga eða fyrirsvarsmenn opinberra hagsmuna beðið þar lægri hlut. Allt hefur þetta fólk átt sína vandamenn og aðra velunnara. Þótt niðurstaða dómsmála ráðist af málsstaðnum, og að sjálfsögðu af honum einum, er ekki viðbúið að allir beri í hljóði harm eða gremju af úrslitum máls, þótt maður verði vissulega að vænta þess af handhöfum annarra þátta ríkisvaldsins,“ sagði Markús.

„Það ætti ekki að koma á óvart að það gusti eitthvað um æðsta dómstól þjóðarinnar en þegar það gerist má vel minnast þess hvernig ádeildum var svarað fyrir tæpri öld og velta fyrir sér hvort þau standi enn fyrir sínu. Flestir hljóta að geta sammælst um að æðsti dómstóllinn þurfi að fá starfsfrið. Til að tryggja þann frið verður málefnaleg gagnrýni ekki að hljóðna, öðru nær, hennar þarfnast Hæstiréttur eins og aðrar grunnstoðir ríkisvaldsins. Mikið yrði hins vegar lagt af mörkum til að stuðla að starfsfriði ef handhafar annarra þátta ríkisvaldsins myndu temja sér, í ýmsum atriðum, aðra hætti í umgengni við dómsvaldið en sést hafa stundum, og jafnvel ítrekað, síðustu hundrað árin,“ sagði Markús í niðurlagi erindis síns. „Í mínum huga yrði það verðug gjöf til Hæstaréttar, í tilefni aldarafmælis, að setja það markmið að þegar liðin verða önnur hundrað ár verði atriði eins og þessi löngu að baki.“

Nánar er fjallað um málið í nýútkomnu tímariti Frjálsrar verslunar. Hægt er að nálgast ritið í verslunum. Hægt er að skrá sig í áskrift gegnum netfangið [email protected] .