*

mánudagur, 26. júlí 2021
Innlent 17. mars 2015 14:34

Starfsgreinasambandið boðar til verkfalla

Aðgerðir Starfsgreinasambandsins hefjast 10. apríl nema kröfu um 300 þúsund króna lágmarkslaun verði mætt.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Starfsgreinasamband Íslands, sem fer með samningsumboð fyrir um ríflega tíu þúsund manns, hefur boðað til umfangsmikilla verkfallsaðgerða frá og með 10. apríl næstkomandi. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Starfsgreinasambandinu.

Viðræðum sambandsins við Samtök atvinnulífsins var slitið fyrir sléttri viku síðan en mikið skildi þá á milli samningsaðila og ekkert þokaðist í samningsátt.

„Samtök atvinnulífsins hafið haldið fast við þá stefnu að laun almenns verkafólks hækki ekki um meira en 3-4%. Í krónum talið þýðir það hækkun grunnlauna um 6.000-9.500 kr. Slíkt er algerlega óviðunandi og var samninganefnd Starfsgreinasambandsins því knúin til að slíta viðræðunum og hefja undirbúning aðgerða,“ segir í tilkynningunni.

Björn Snæbjörnsson, formaður Starfsgreinasambandsins, segir fulla alvöru á bakvið þær kröfur sem sambandið hafi sett fram en auðvitað vonist hann til að hægt sé að afstýra verkfalli.

Krefjast 300 þúsund króna lágmarkslauna

Starfsgreinasambandið gerir þá kröfu að lægstu taxtar verði komnir upp á 300 þúsund krónur innan þriggja ára. Segja þau að það sé nauðsynlegt til þess að almennt verkafólk hafi möguleika á að framfleyta sér á grunndagvinnulaunum, en það sé ekki hægt í dag. 

Að auki gera félagsmenn eftirfarandi kröfur:

  • Að fólk með hærri starfsaldur og/eða þeir sem hafi sótt sér fræðslu og menntun njóti þess.
  • Að laun í útflutningsgreinum hækki sérstaklega.
  • Að vaktaálag hækki og heimild fyrirtækja til að greiða eftir vaktaálagi verði skilyrt við ákveðið hlufall af dagvinnutíma. Ella sé greidd yfirvinna.
  • Að desember- og orlofsuppbætur hækki.

Samninganefnd Starfsgreinasambandsins á hinum almenna markaði fer með umboð fyrir rúmlega 10.000 manns en Flóabandalagið (Efling, Hlíf og Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur og nágrennis) semur sérstaklega, auk þess sem fjöldi sérkjarasamninga er í gildi og taka aðgerðirnar ekki til þeirra. Þá er töluverður hluti félaga í SGS í störfum hjá ríki og sveitarfélögum.

Aðgerðirnar núna snúa eingöngu að Samtökum atvinnulífsins og atkvæði um verkfallsboðun verða greidd af félagsmönnum sem taka laun samkvæmt kjarasamningum á milli SGS og SA. 42% þeirra sem greiða atkvæði um verkfall starfa á matvælasviði (fiskvinnslu, afurðastöðvum, kjötvinnslum og í sláturhúsum) en 32% atkvæðisbærra félaga eru í þjónustugreinum (ferðaþjónustu, ræstingum o.fl.), aðrir hópar telja byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð, iðnað og farartækja- og flutningsgreinar.