Meðlimir Starfsgreinasambandsins samþykktu í atkvæðagreiðslu kjarasamninga SGS og Samtaka atvinnulífsins voru samþykktir með yfirgnæfandi meirihluta, að því er segir í frétt á vefsíðu SGS. Í heildina var kjörsókn rúmlega 25%, já sögðu 79,95% en nei sögðu 18,43%. Auðir seðlar voru 1,62%. Á kjörskrá voru 9.589 manns. Starfsgreinasambandið fór með umboð 15 aðildarfélaga í viðræðunum og hélt utan um sameiginlega rafræna atkvæðagreiðslu um samningana.

Í fréttinni segir að niðurstöðurnar hafi alls staðar verið afgerandi og teljist samningarnir á hinum almenna vinnumarkaði sem undirritaðir voru 29. maí síðastliðinn því samþykktir hjá eftirfarandi félögum: AFLi Starfsgreinafélagi, Öldunni stéttarfélagi, Bárunni stéttarfélagi, Drífandi stéttarfélagi, Einingu – Iðju, Framsýn stéttarfélagi, Samstöðu stéttarfélagi, Verkalýðsfélagi Akraness, Verkalýðsfélagi Grindavíkur, Verkalýðs- og sjómannafélagi Bolungarvíkur, Verkalýðs- og sjómannafélagi Sandgerðis, Verkalýðsfélagi Snæfellinga, Verkalýðsfélagi Suðurlands, Verkalýðsfélagi Vestfirðinga og Verkalýðsfélagi Þórshafnar.