Róbert Marshall, aðstoðarmaður samgönguráðherra, segir í samtali við Viðskiptablaðið að ákveðið hafi verið að skipa starfshóp í samgönguráðuneytinu til þess að fara yfir stöðu mála á leigubifreiðamarkaðnum.

"Regluverk um leigubílaakstur verður tekið til endurskoðunar með tilliti til þarfa þjóðfélagsins til þjónustunnar," segir hann. Róbert segir mikilvægt að skýrar reglur gildi um skilyrði leyfisveitinga, eftirlit og annað á leigubifreiðamarkaðnum til þess að tryggja fagmennska á sviðinu og öryggi farþega. Aðspurður segir hann þó að ekki standi til að gera grundvallarbreytingar á takmörkunarkerfinu sem hefur verið í gildi í atvinnugreininni.


Umræða hefur skapast um leigubifreiðamarkaðinn vegna mikill biðraða eftir leigubílum í miðborginni um helgar og innkomu Leigubílastöðvarinnar 5678910 á markaðinn í kjölfar þess að opinber hámarksökutaxti leigubifreiða var felldur úr gildi í fyrra, en forsvarsmenn stöðvarinnar segja erfitt fyrir nýja aðila að fóta sig á markaðnum eins og lagaumhverfið er.


Umfjöllun um leigubifreiðamarkaðinn birtist í Viðskiptablaðinu síðastliðinn þriðjudag, en Samkeppniseftirlitið sendi frá sér álit fyrr í sumar þar sem sagði að miklar aðgangshindranir og fákeppni hafi um langa hríð einkennt markaðinn fyrir þjónustu leigubifreiðarstjóra á höfuðborgarsvæðinu. "Þessar samkeppnishömlur má að mati Samkeppniseftirlitsins einkum rekja til þess lagaumhverfis sem leigubifreiðamarkaðurinn starfar í. Má þar sér í lagi nefna takmarkanir á fjölda leigubifreiða á takmörkunarsvæðunum skv. 8. gr. laga um leigubifreiðar og skilyrði í 6. gr. sömu laga um að engum megi veita meira en eitt atvinnuleyfi," segir í álitinu.


Róbert segir ljóst að álit Samkeppniseftirlitsins kalli á breytingar. "Sú vinna sem ráðherra hefur látið fara af stað miðar að því að fara yfir regluverkið í því skyni að kanna hvort ástæða sé að gera breytingar í samræmi við þau álit sem hafa borist frá hagsmunaaðilum og stofnunum eins og Samkeppniseftirlitinu, en mikilvægt er að sátt náist milli hagsmunahópa," segir aðstoðarmaður samgönguráðherra.