Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra nýsköpunar, hefur sett á laggirnar starfshóp til að setja fram tillögur um rekstrarform og ráðstöfun eigna Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá ráðuneytinu.

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins var settur á laggirnar árið 1998. Á þeim tíma var framboð fjármagns til sprotafyrirtækja af skornum skammti og töldu stjórnvöld nauðsynlegt að mæta þyrfti þeim markaðsbresti. Frá þeim tíma hefur sjóðurinn gegnt mikilvægu hlutverki sem fyrsti fjárfestir og átt þátt í að brúa bilið milli opinberra samkeppnissjóða og annara fjárfesta í nýsköpunarfyrirtækjum.

Frá því að sjóðurinn tók til starfa hefur umhverfi framtaksfjárfestinga breyst mikið, m.a. með tilkomu nýrra fjárfestingarfélaga og samlagssjóða. Staða sjóðsins hefur verið erfið síðustu ár, meðal annars hefur sala eigna gengið hægt og nýfjárfestingar því verið litlar. Framtíðarfyrirkomulag rekstrar og ráðstöfun eigna sjóðsins hefur verið til skoðunar í nokkur ár og er hlutverk starfshópsins að fara yfir fyrirliggjandi gögn og setja fram rökstuddar tillögur segir í fréttatilkynningunni. Óskar ráðuneytið eftir því að starfshópurinn skili tillögum sínum í stuttri greinargerð fyrir 30. september næstkomandi.

Starfshópinn skipa:

  • Guðrún Gísladóttir, formaður - Skrifstofustjóri í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu
  • Almar Guðmundsson - Stjórnarformaður Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins
  • Guðrún Ögmundsdóttir - Sérfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneytinu
  • Tryggvi Hjaltason - Framleiðandi hjá CCP