Skipaður hefur verið starfshópur sem móta á tillögu að framtíðarstefnu í fæðingarorlofsmálum hér á landi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félags- og húsnæðismálaráðuneyti. „Starfshópnum er ætlað að huga sérstaklega að því hvernig best megi ná markmiðum laga um fæðingar- og foreldraorlof um að tryggja barni samvistir við báða foreldra sína samhliða því að foreldrum verði gert kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf.“

Fram kemur í tilkynningunni að litið verður til þess hvernig endurheimta megi þann megintilgang fæðingarorlofskerfisins að stuðla að því að röskun á tekjuinnkomu heimilanna verði sem minnst þegar foreldrar leggja niður störf í fæðingarorlofi ásamt því að tryggja samfellu milli fæðingarorlofs og dagvistunarúrræða sem eru fyrir hendi þegar fæðingarorlofi lýkur.

Formaður starfshópsins er Birkir Jón Jónsson.