Starfshópur, skipaður 30. apríl 2019 af Kristjáni Þór Júlíussyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, til að endurskoða meðferð og ráðstöfun 5,3% aflaheimilda sem ríkið fer með forræði yfir hefur lokið störfum og skilað skýrslu til ráðherra.

Helstu tillögur starfshópsins eru eftirfarandi eins og kemur fram í tilkynningu:

Tilgangur og markmið atvinnu- og byggðakvóta verði betur skýrð í lögum og árangur þeirra metinn.

Áhersla verði lögð á stuðning við smærri sjávarbyggðir í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.

Að ótvírætt sé að 5,3% aflaheimilda eru dregin frá heildarafla í hverri tegund vegna atvinnu- og byggðakvóta áður en aflaheimildum er úthlutað á einstök skip.

Innbyrðis skipting þeirra 5,3% aflaheimilda sem dregin eru frá heildarafla í hverri tegund vegna atvinnu- og byggðakvóta verði fest til sex ára.

Almennum byggðakvóta verði úthlutað til sex ára í samræmi við meðaltal fyrri ára og svigrúm aukið til að nýta hann í samræmi við aðstæður á hverjum stað.

Ónýttri línuívilnun verði úthlutað sem almennum byggðakvóta í samræmi við hlutdeild einstakra byggðarlaga á undangengnum árum.

Gert verði upp við handhafa skel- og rækjubóta og þær aflaheimildir renni í varasjóð til að bregðast við óvæntum áföllum í sjávarbyggðum.

Starfshópinn skipuðu:

Bergþóra Benediktsdóttir aðstoðarmaður forsætisráðherra.

Gunnar Atli Gunnarsson aðstoðarmaður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Þorsteinn Víglundsson alþingismaður.

Þóroddur Bjarnason prófessor (formaður).

Jafnframt gerir starfshópurinn ýmsar tillögur um minni breytingar á fyrirkomulagi almenns byggðakvóta, sértæks byggðakvóta, línuívilnunar, strandveiða og frístundaveiða í tengslum við ferðaþjónustu. Starfshópurinn leggur sérstaka áherslu á þá ábyrgð sem fólgin er í ráðstöfun ríkisins á þeim umtalsverðu verðmætum sem felast í 5,3% heildaraflamarks. Því telur hópurinn mikilvægt að slíkur stuðningur hafi skýr og mælanleg markmið, eftirfylgni sé fullnægjandi og árangur metinn með reglubundnum hætti.

Samkvæmt skipunarbréfi var starfshópnum ætlað að endurskoða meðferð og ráðstöfun aflaheimilda sem lög nr. 116/2016, um stjórn fiskveiða kveða á um að skulu teknar frá til sérstakra verkefna og hér eru nefndir atvinnu- og byggðakvótar. Við þá endurskoðun skyldi litið til stefnumörkunar í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttir og leitast við að hámarka virði þeirra verðmæta sem felast í umræddum aflaheimildum.

Skýrsla starfshópsins .

Kynning um málið.