Til að bæta núverandi stöðu Íbúðalánasjóðs leggur starfshópur til að skilið verði á milli útlánastarfsemi sjóðsins og umsýslu fullnustueigna Þá verði að draga úr uppgreiðsluáhættu eins og kostur er, leita verði allra leiða til að koma handbæru fé í ávöxtun, t.d. með kaupum á lánasöfnum, og draga beri úr vanskilum með bættum innheimtuferlum og úrræðum fyrir skuldug heimili.

Starfshópurinn, sem Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra fól að gera tillögur um horfur og hlutverk Íbúðalánasjóðs til framtíðar, hefur skilað ráðherra tillögum sínum og kynnti hann skýrslu hópsins á fundi ríkisstjórnar í dag.

Til að bæta lánskjör lántakenda og stuðla að aukinni samkeppni á útlánamarkaði leggur hópurinn til að stofnaður verði heildsölubanki utan Íbúðalánasjóðs, með aðild lánveitenda, án hagnaðarkvaðar. Þessi banki hafi það hlutverk að gefa út stóra markaðshæfa skuldabréfaflokka á hagstæðum kjörum. Öllum fjármálastofnunum, sem uppfylla ákveðin skilyrði, þar á meðal Íbúðalánasjóður, verði boðin aðkoma að heildsölubankanum, sem eigi að fjármagna bæði verðtryggð og óverðtryggð lán.

Til að minnka áhættu sjóðsins segir hópurinn að tryggja skuli að áhættu jafnvægi ríki milli nýrrar fjármögnunar og útlána með beinni pörun að því marki sem hægt sé. Hlutfall lána til einstaklinga fari ekki umfram 80% af verðmæti húsnæðis og lán til sveitarfélaga, félaga og félagasamtaka án hagnaðarkvaða verði eins og tiltekið er í lögum um húsnæðismál.

Þá segir að hætta eigi eða draga verulega úr nýrri fjármögnun Íbúðalánasjóðs sem ber ríkisábyrgð og að sjóðurinn eigi að jafnaði aðeins að sinna þjónustuhlutverki sínu í almannaþágu þannig að lán sé háð þrengri verðmörkum og þar með lækki heildarútlán sjóðsins.