Benedikt Jóhannesson Fjármála- og efnahagsráðherra hefur skipað starfshóp sem mun hafa það hlutverk að vinna tillögur að aðgerðum til úrbóta vegna ábendinga sem fram hafa komið um ójafna samkeppnisstöðu íslenskra ferðaþjónustuaðila gagnvart erlendum keppinautum. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef ráðuneytisins .

Snýr umræðan fyrst og fremst að skatt skattskilum erlendu aðilanna, bæði varðandi skil á virðisaukaskatti af þeirri þjónustu sem þeir veita og er nýtt hér á landi, en einnig mögulegri tekjuskattskyldu þeirra hérlendis vegna þessarar starfsemi sem og staðgreiðsluskyldu vegna launþega á þeirra vegum.

Þá hefur einnig verið bent á að reglubundnar ferðir erlendra skemmtiferðaskipa milli hafna innanlands hafi skapað ójafna samkeppnisstöðu gagnvart veitingahúsum og gististöðum hér á landi.

Í ljósi þessarar umræðu hefur ráðherrann skipað framangreindan starfshóp til að greina betur stöðu mála í erlendri ferðaþjónustustarfsemi hér á landi, jafnframt því að koma með tillögur til úrbóta.

Undir hugtakið erlend ferðaþjónustustarfsemi fellur rekstur erlendra hópferðabifreiða og ferðaskrifstofa, auk ferðaleiðsagnar, en einnig rekstur erlendra skemmtiferðaskipa í innanlandssiglingum.

Í hópnum sitja:

  • Hlynur Ingason, formaður - lögfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneytinu
  • Elín Alma Arthursdóttir - sviðsstjóri fagsviðs hjá ríkisskattstjóra
  • Guðný Bjarnarsdóttir - forstöðumaður hjá skattrannsóknarstjóra
  • Steinþór Þorsteinsson - sérfræðingur hjá tollstjóra