Í Viðskiptablaðinu sem kom út síðastliðinn fimmtudag er fullyrt að stjórn Sjóvár hyggist leggja fram tillögu að kaupaukakerfi á aðalfundi sem fer fram 29. apríl næstkomandi. Er i fréttinni vísað í tillögur stjórnarinnar fyrir næsta aðalfund vegna þessa, en tillögurnar voru samþykktar þann 25. mars síðastliðinn og birtar opinberlega á miðvikudaginn .

Það er hins vegar ekki rétt að ein tillaganna lúti að því að samþykkja hvatakerfi, eða kaupaukakerfi, á næsta aðalfundi. Það sem verður lagt fyrir aðalfundinn er tillaga að starfskjarastefnu. Í þeirri starfskjarastefnu kemur vissulega fram að fyrirhugað sé að koma á hvatakerfi sem muni vera í samræmi við reglur FME um slík kerfi. Tillögur að slíku kerfi skuli lagðar fyrir aðalfund til samþykktar.

Þótt þetta ákvæði um kaupaukakerfi sé í starfskjarastefnunni, hefur ekki verið ákveðið að slík tillaga um kaupaukakerfi verði lögð fram sérstaklega á aðalfundinum eins og ranghermt var í frétt Viðskiptablaðsins. Beðist er velvirðingar á þeirri rangfærslu.