Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að launahækkanir í efstu lögum fyrirtækja séu ekki meiri en gengur og gerist í atvinnulífinu. „Miklar launahækkanir stjórnenda eru ekki stefna samtaka atvinnulífsins og gera okkur erfitt fyrir að skapa sátt á vinnumarkaði,“ segir Halldór Benjamín.

„Aðalatriðið er hins vegar að stjórnendur í heild hafa gengið fram af mikilli ábyrgð, enda sýna tölur Hagstofu Íslands að launahækkanir þeirra á árunum 2014 til 2016 eru lægri en meðallaunahækkanir á almennum vinnumarkaði. Allir á vinnumarkaði þurfa að sýna ábyrgð og vera með hóflegar kröfur og þar eru stjórnendur sannarlega ekki undanskildir og finna til ábyrgðar í þessum efnum sem öðrum,“ segir Halldór Benjamín.

„Starfskjarastefnur skráðra félaga eru hins vegar býsna óskýrar. Þær verða að vera skýrari. Ég held að bæði stórir hluthafar og skráðu félögin þurfi að fara í það verkefni að kalla eftir því hvernig þessar starfskjarastefnur eiga að vera útfærðar þannig að menn geti tekið raunverulega afstöðu til þess hverju þeir eru að greiða atkvæði með eða á móti. Sennilega er þetta of opið,“ segir Halldór Benjamín. Hann segir mikilvægt að byggja brú milli starfskjarastefnu skráðra félaga og hluthafastefnu lífeyrissjóðanna, þannig að það fari ekki á milli mála hvort starfskjarastefna sé í takt við hluthafastefnuna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .