Fjármálaeftirlitið (FME) hefur afturkallað starfsleyfi Sögu Fjárfestingarbanka sem lánafyrirtæki, samkvæmt tilkynningu á vefsíðu eftirlitsins. Fyrirtækið fullnægir ekki ákvæði laga um fjármálafyrirtæki um eigið fé. Afturköllunin miðast við 3. október 2011.

Viðskiptablaðið fjallaði um málefni Sögu í byrjun september sl. Þá var tilkynnt um kaup MP banka á fyrirtækjaráðgjöf Sögu. Við breytingarnar urðu tveir starfsmenn eftir í Sögu, Hersir Sigurgeirsson forstjóri og einn annar starfsmaður. Í júní síðastliðnum voru starfsmenn Sögu 16 talsins, en hefur fækkað ört síðan.

Í kjölfar breytinga í september sendi Viðskiptablaðið fyrirspurn til FME, um hvort bankaleyfi verði afturkallað. FME gat á þeim tíma ekki svarað spurningum um um afturköllun einstakra banka, að öðru leyti en því að afturköllun er auglýst í Lögbirtingablaðinu. Eftirlitið sagði þó að tveggja manna fjármálafyrirtæki eigi að öllu jöfnu erfitt með að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til banka.