Starfslokagreiðsla Hampiðjunnar til Jóns Guðmanns Péturssonar, fyrrverandi forstjóra fyrirtækisins, setti mark sitt á uppgjör fyrirtækisins. Fram kom í uppgjöri Hampiðjunnar að greiðslan hafi numið 1,6 milljónum evra, eða sem nemur 245 milljónum króna. Jón Guðmann hætti störfum í maí í fyrra. Hann hafði þá unnið hjá Hampiðjunni í 27 ár. Greint var frá því í mars að Jón hafi ákveðið að segja upp. Kjarninn greindi svo frá því í kjölfarið að hann fái háar upphæðir í starfslokagreiðslu. Undir hana falli uppgjör á bónusgreiðslum og hækkun á gengi hlutabréfa Hampiðjunnar.

Í uppgjöri Hampiðjunnar er haft eftir forstjóranum Hirti Erlendssyni, sem tók við af Jóni, að starfslokagreiðslan hafi valdið því að hagnaðurinn á fyrri hluta árs hafi dregist saman á milli ára.

Hagnaður Hampiðjunnar nam 2,6 milljónum evra á fyrri hluta árs. Þetta jafngildir tæpum 400 milljónum króna. Á sama tíma í fyrra nam hagnaður Hampiðjunnar 4,2 milljónum evra.