Hjörleifur Kvaran, fráfarandi forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur (OR), fær þriggja mánaða uppsagnarfrest borgaðan auk sex mánaða til viðbótar, í takt við starfssamning hans við OR.

Samtals, miðað laun hans í fyrra upp á rúmlega 1,8 milljónir króna, er heildarkostnaður við uppsögn Hjörleifs því rúmlega 16 milljónir króna.

Traust stjórn

Hjörleifur segir mikla þörf vera á því núna að hafa stjórn OR styrka og trausta. Fyrirtækið þarf að ná sér í fjármagn um áramót. Þangað til hafi fyrirtækið tryggja fjármögnun.

„Það verður að tryggja fjármögnun fyrirtækisins og það gerist öðru fremur með því að vera með samskipti við lánadrottna í traustum farvegi og samstillta stjórn. Það er ekki raunin núna. Ég vona að stjórn fyrirtækisins verði stöðugri en verið hefur til þess. Það hafa verið sjö stjórnarformenn OR á þeim tíma sem ég hef verið við stjórnvölinn. Samskiptin við stjórnina hafa verið fagleg og góð alla tíð, þar til nú," segir Hjörleifur í samtali við Viðskiptablaðið.

Hann segist sjálfur aðeins hafa unnið að því að framkvæma vilja stjórnar fyrirtækisins á hverjum tíma.

„Ákvarðanir um lántökur vegna virkjanaframkvæmda voru auðvitað teknar af stjórnum á hverjum tíma. Þau verkefni sem ég hef sinnt snúast að miklu leyti um verkefni sem þegar voru komin af stað. Svo hefur álagið á fyrirtækið og allt starfsfólk, sem hefur staðið sig með ólíkindum vel, verið gríðarlegt frá hruni. Ég tek formlega við stjórnartaumunum 19. september 2008 þannig að þetta hefur verið mjög krefjandi og erfiður tími."

Alvarleg staða - gæti reynt á eigendaábyrgð

Skuldir OR eru að 90% leyti í erlendum myntum en 10% í krónum. Tekjurnar eru hins vegar í næstum alveg öfugum hlutföllum, 80% í krónum en 20% í erlendri mynt, einkum dollar. Gengisfall krónunnar frá hruni hefur því haft alvarlegar afleiðingar fyrir fyrirtækið. Skuldirnar eru nú um 230 milljarðar króna.

Hjörleifur segir vaxtakostnaðinn við 10% hlutann, þ.e. vegna lána í krónum, þó vera svipað háan og vaxtakostnaðinn við 90% af skuldunum.

„Það er auðvitað með fullkomnum ólíkindum. Lánakjör í krónum hafa hins vegar verið þessi lengi, því miður."

Aðspurður hvort OR getið orðið gjaldþrota segir Hjörleifur:

„Nei, OR getur ekki orðið gjaldþrota en það getur reynt á eigendaábyrgð sem liggur að mestu leyti hjá Reykjavíkurborg. Hún þarf þá að koma fyrirtækinu til bjargar. En það ætti ekki að þurfa ef vel er haldið á spöðunum. Vanda OR má að miklu leyti rekja til þess að gjaldskrárhækkanir hafa ekki neinar verið á sama tíma og verðbólga hefur haldist há. Þetta hefur leitt til þess að tekjumyndun hefur verið mun minni en hún hefði átt að vera á sama tíma og stjórnin var að taka ákvarðanir um miklar fjárfestingar og lántökur. Stjórn OR ber ábyrgð á þessum ákvörðunum og það eru sérstaklega vonbrigði að síðasti meirihluti í borginni hafi ekki tekið ákvörðun um gjaldskrárhækkanir. Lánastofnanir erlendis hafa verið að loka á lán til okkar vegna þess að þær sjá að það er hægt að taka til hendinni hér innanhús áður en tekin eru ný lán."