Umboðsmaður Alþingis hefur óskað eftir upplýsingum um þrjá starfslokasamninga sem gerðir voru í tíð Björns Zoëga, fyrrverandi forstjóra Landspítalans. Fram kemur í Fréttablaðinu í dag að grunur leiki á að samningarnir hafi verið gerðir án heimildar. Umboðsmaður Alþingis gaf árið 2007 út álit um heimildir stjórnenda ríkisstofnana til að gera starfslokasamninga. Þar kemur að ekki sé unnt að gera starfslokasamninga við ríkisstarfsmenn án sérstakra lagaheimilda.

Blaðið segir samningana hafa verið gerða árið 2009 og síðar. Tveir samninganna voru gerðir til tíu mánaða og fylgdi öðrum ákvæði um að starfsmaður sinnti á tímabilinu verkefni í tengslum við nýtt sjúkrahús. Hinn samningurinn fól ekki í sér vinnuframlag.