„Þetta hefur engin áhrif á sameiningarviðræðurnar við MP banka,“ segir Jakob Ásmundsson, forstjóri Straums fjárfestingabanka, í samtali við Morgunblaðið um starfslok þriggja starfsmanna bankans. Eins og greint hefur verið frá eiga Straumur og MP banki í sameiningarviðræðum um þessar mundir.

Greint var frá því í gær að Páll Ragnar Jóhannesson, yfirmaður fyrirtækjaráðgjafar hjá Straumi, hefði látið af störfum hjá bankanum. Í síðustu viku sögðu einnig tveir starfsmanna bankans, þeir Haraldur I. Þórðarson og Steingrímur Arnar Finnsson, upp störfum.

Jakob segir starfslokin hafa borið að með mismunandi hætti. „Starfslok Páls áttu sér langan aðdraganda en starfslok hinna tveggja bar brátt að. En maður kemur í manns stað og reksturinn byggist ekki á einum til tveimur einstaklingum heldur öflugum hópi starfsmanna.“