Í dag tilkynnti evrópska tæknifyrirtækið ABB að þau höfðu komist að því að starfsmaður félagsins í Suður-Kóreu væri horfinn og hefði tekið með sér á brott 100 milljónir dollara. Frá þessu er greint í frétt CNN Money .

Var það fjármálastjóri fyrirtækisins sem hvarf fyrir um tveimur vikum síðan. Í kjölfarið uppgötvaði fyrirtækið að peningarnir væru horfnir. Talið er að hann hafi falsað skjöl og unnið með aðilum sem ekki vinna hjá fyrirtækinu. Falsið og fjárdrátturinn hafa einungis farið fram í útibúi fyrirtækisins í S-Kóreu. 800 starfsmenn starfa hjá ABB í Asíuríkinu.

Í heildina starfa um 132 þúsund manns hjá fyrirtækinu um heiminn allan. Í fyrra hagnaðist ABB um 2 milljarða dollara og tekjur fyrirtækisins numu 34 milljörðum dollara. Interpol vinnur nú að rannsókn málsins ásamt lögreglunni í Suður-Kóreu.