Heildarkostnaður atvinnurekenda eykst um tæp 13% í kjölfar nýgerðra kjarasamninga á næstu þremur árum en launahækkanirnar verða í þremur þrepum.

2011 hækka laun um 4,25%, 2012 hækka laun um 3,5% og 2013 hækka laun um 3,25%. Lægri laun hækka svo meira þar sem þau hækka í krónum talið.

Kosning stendur nú yfir hjá aðildarfélögum Samtaka atvinnulífsins og lýkur henni á föstudaginn.

Launahækkanir ganga út frá meiri hagvexti en spáð er, en fyrirliggjandi hagspár gera ráð fyrir litlum hagvexti eða á bilinu 2,3% til 2,9% samkvæmt Samtökum atvinnulífsins. Forsendur samningsins eru að kaupmáttur aukist bæði 2011 og 2012, verðlag haldist stöðugt, gengi styrkist og að gengivísitölu 190 verði náð fyrir árslok 2012.

Útborguð laun hækka um 10 þúsund

Launþegi sem fær 400 þúsund í laun hækkar í 417 þúsund krónur á mánuði en kostnaður atvinnurekenda af þessum launþega fer úr tæpum 473 þúsund krónum í 493 þúsund krónur. Kostnaður við þennan launþega verður kominn í 521 þúsund krónur árið 2013.

Þessi sami launþegi fékk áður útborgaðar rúmar 272 þúsund krónur en fær nú tæpar 282 þúsund krónur.

Ef áætlanir um minna atvinnuleysi ganga eftir lækkar tryggingagjaldið frá næstu áramótum og aftur í ársbyrjun 2013. Tryggingagjaldið í heild gæti lækkað um tæpt 1% um næstu áramót og um 0,3% til viðbótar 2013.

Við gefum okkur því að það verði komið niður í 7,4% árið 2013 í útreikningi á kostnaði við hvern launþega. Fyrir launþega mun sú breyting verða gerð á persónuafslætti að hann tekur mið af verðbreytingum og hækkar fyrst samkvæmt þessu 2012.

Við gerum ráð fyrir 2,5% verðbólgu þannig að persónuafsláttur, sem er nú 44.205 krónur, verði kominn í 46.443 krónur árið 2013. Gert er ráð fyrir óbreyttum skattþrepum og óbreyttum framlögum í prósentum til stéttarfélaga og í lífeyrissjóði.

Svona breytast launaliðir

Launaliðir vinnuveitenda
Launaliðir vinnuveitenda
© vb.is (vb.is)

Svona aukast gjöld vinnuveitenda

Gjöld vinnuveitenda
Gjöld vinnuveitenda
© vb.is (vb.is)