Starfsmaður Samkeppniseftirlitsins (SKE) hefur hlotið réttarstöðu grunaðs manns í rannsókn lögreglu á því þegar gögnum var lekið frá SKE til Kastljóss um kæru ellefu starfsmanna Eimskips og Samskipa til sérstaks saksóknara. Morgunblaðið greinir frá þessu.

Þar kemur fram að lögreglan hafi að undanförnu haft lekann til rannsóknar og lagt hald á ákveðin tölvugögn SKE. Við rannsókn þeirra hafi grunur beinst að umræddum starfsmanni.

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, gat ekki upplýst um stöðu rannsóknarinnar að öðru leyti í svari til Morgunblaðsins og sagði það nú í höndum opinberra rannsóknaraðila.